< Sálmarnir 45 >

1 Hjarta mitt svellur af fögrum orðum. Ég vil flytja konungi ljóð. Tunga mín er penni hraðritarans, hún flytur langa sögu á augabragði: 2 Þú ert fegurri en mannanna börn. Blessun streymir um varir þínar. Velþóknun Guðs er yfir þér að eilífu. 3 Þú hetja, tak herklæði þín, máttugur ertu og krýndur ljóma 4 Sæktu fram! Sigursæll ertu, vörður tryggðar og réttlætis. Gakk fram – máttarverk þín verði á allra vörum! 5 Örvar þínar eru hvesstar, óvinir falla að fótum þér. 6 Hásæti þitt, ó Guð, stendur um eilífð. Réttlætið er sproti þinn. 7 Þú elskar hið góða hefur andstyggð á illsku. Því hefur Guð, þinn Guð, sveipað þig gleði sem engan annan. 8 Skikkja þín ilmar af myrru, alóe og kassíu. Hallir þínar eru skreyttar fílabeini og fyllast af ljúfum tónum. 9 Konungadætur eru í hópi vinkvenna þinna. Drottningin stendur þér við hlið, fagurlega klædd og skreytt skíra gulli frá Ófír! 10 „Dóttir mín, hlustaðu. Ég vil gefa þér ráð: Gleymdu heimþránni, vertu ekki döpur. 11 Konungurinn elskar þig og gleðst yfir fegurð þinni. Sýndu honum lotningu því hann er herra þinn. 12 Íbúar Týrus, baða þig í gjöfum og auðmenn þjóðarinnar leita hylli þinnar.“ 13 Brúðurin – konungsdóttir – bíður í skrauthýsi sínu, íklædd fegursta djásni, kjól skreyttum gulli og perlum. 14 Fögur er hún! Meyjarnar leiða hana á fund konungs. 15 Þær fara í skrúðgöngu gegnum hliðið. Þarna er höllin! 16 „Synir þínir verða allir konungar og feta í fótspor föður síns. Þeir munu sitja á hásætum víðs vegar um heim!“ 17 „Ég mun gera nafn þitt kunnugt meðal allra kynslóða og þjóðir jarðarinnar munu hylla þig að eilífu.“

< Sálmarnir 45 >