< Matteus 7 >

1 Verið ekki aðfinnslusamir, og þá munu aðrir ekki heldur finna að við ykkur. 2 Eins og þú ert við aðra, munu þeir verða gagnvart þér. 3 Hvers vegna hefur þú áhyggjur af flísinni í auga bróður þíns? Þú ert sjálfur með planka í auganu! – Já, heilan bjálka! 4 Er rétt af þér að segja: „Vinur, leyfðu mér að hjálpa þér að fjarlægja þessa flís úr auganu á þér, “meðan þú sérð alls ekki til vegna plankans sem er í þínu eigin auga? 5 Hræsnari! Losaðu þig fyrst við plankann, og eftir það muntu sjá vel til að hjálpa bróður þínum. 6 Láttu ekkert heilagt í hendur spilltra manna. Kastaðu ekki perlum fyrir svín, því þau munu troða þær niður í svaðið og ráðast að því búnu gegn þér. 7 Biðjið og þið munuð öðlast. Leitið og þið munuð finna. Knýið á og þá mun verða lokið upp. 8 Því sá öðlast sem biður. Sá finnur sem leitar og fyrir þeim, sem á knýr, mun opnað verða. 9 Hvaða maður gæfi barni sínu stein, ef það bæði um brauð? 10 Eða höggorm, ef það bæði um fisk? Enginn! 11 Fyrst þið sem eruð vondir og syndugir menn, hafið vit á að gefa börnunum ykkar góðar gjafir, hversu miklu fremur mun þá faðir ykkar á himnum gefa þeim góðar gjafir sem biðja hann? 12 Vertu við aðra eins og þú vilt að þeir séu við þig – þetta er kjarninn í lögum Móse. 13 Eina leiðin til himins liggur um þrönga hliðið. Vegurinn til glötunar er breiður og hlið hans vítt – greiðfær leið öllum sem hana velja. 14 Vegurinn til lífsins er mjór og hlið hans þröngt, fáir eru þeir sem finna hann. 15 Gætið ykkar á falskennendum sem dulbúa sig sem saklaus lömb, en eru hið innra sem gráðugir úlfar. 16 Þið getið þekkt þá á afleiðingum orða þeirra og verka – á sama hátt og þið þekkið tré af ávöxtum þess. Það er óþarfi fyrir ykkur að ruglast á vínviði og þyrnirunna, eða á fíkjutré og þistlum. 17 Tré þekkist af ávöxtunum. 18 Tré sem ber ljúffenga ávexti, ber ekki óæta ávexti, og tré sem ber vonda ávexti, ber ekki góða á sama tíma. 19 Tré það, sem ber eintómt óæti, er rifið upp og notað í eldinn. 20 Leiðin til að þekkja tré eða mann er að kanna ávextina. 21 Ekki eru allir guðræknir, sem tala guðrækilega. Þeir ávarpa mig: „Herra“– en munu samt ekki komast til himins, heldur aðeins þeir sem gera það sem faðir minn á himnum vill að þeir geri. 22 Margir munu segja við mig á dómsdegi: „Herra, herra, við sögðum fólkinu frá þér, við rákum út illa anda með þínu nafni og unnum mörg önnur mikil kraftaverk.“ 23 Ég mun svara þeim: „Ég hef aldrei þekkt ykkur né þið haft samfélag við mig. Farið burt, því verk ykkar eru vond.“ 24 Þeir sem hlusta á orð mín og fara eftir þeim, líkjast hyggnum manni sem byggir húsið sitt á klöpp. 25 Þó að rigni og vatnavextir verði, stormurinn æði og lemji húsið, mun það ekki haggast, því það er byggt á traustum grunni. 26 Þeir sem heyrt hafa orð mín, en fara samt ekki eftir þeim, eru heimskir. Þeir eru eins og maður sem byggir húsið sitt á sandi. 27 Og þegar stormurinn blæs og flóðbylgjan kemur æðandi og skellur á því, hrynur það með braki og brestum.“ 28 Mannfjöldinn undraðist predikun Jesú, því að hann talaði af miklum myndugleika, eins og sá sem valdið hefur, en ekki eins og fræðimennirnir.

< Matteus 7 >