< Markús 4 >

1 Seinna, þegar mikill fjöldi hafði safnast að honum á strönd Galíleuvatnsins, fór hann út í bát og talaði þaðan til fólksins. 2 Hann var vanur að kenna fólkinu í dæmisögum og hér er ein þeirra: 3 „Takið eftir! Bóndi nokkur fór út á akur að sá korni. 4 Er hann sáði féll sumt af sáðkorninu á götuna og fuglarnir komu og átu það upp. 5 Sumt féll í grýtta jörð, þar sem jarðvegur var grunnur. Það korn spratt fljótt, en skrælnaði fyrr en varði í hitanum og dó, því það hafði nær engar rætur. 6 7 Annað lenti meðal þyrna sem uxu yfir það og kæfðu það. 8 En sumt af útsæðinu féll í góða jörð og gaf af sér þrítugfalda, sextugfalda eða jafnvel hundraðfalda uppskeru. 9 Sá sem hefur eyru til að heyra, taki eftir þessu.“ 10 Þegar Jesús var orðinn einn með lærisveinunum spurðu þeir hann: „Hvað þýðir sagan sem þú sagðir áðan?“ 11 Jesús svaraði: „Þið fáið að læra margt um guðsríkið, sem hulið er þeim er utan við það standa. Jesaja spámaður sagði: „Þótt þeir sjái og heyri, skilja þeir ekki, né snúa sér til Guðs til þess að fá syndir sínar fyrirgefnar.“ 12 13 Hvernig fer um allar hinar dæmisögurnar, ef þið skiljið ekki þessa einföldu sögu. 14 Bóndinn, sem ég sagði ykkur frá, er sá sem flytur öðrum boðskap Guðs. Hann reynir að sá góðu sæði í hjörtu fólksins. 15 Troðni stígurinn, þar sem sumt af korninu féll, lýsir hörðum hjörtum, sem heyra orð Guðs, en Satan kemur þegar í stað og reynir að fá þau til að gleyma því. 16 Grýtti jarðvegurinn lýsir hjörtum þeirra sem hlusta með ánægju, 17 en það fer fyrir þeim eins og fyrir ungum plöntum í slíkum jarðvegi, ræturnar ná ekki djúpt og þó allt gangi vel í byrjun, þá visna þær – þeir gefast upp jafnskjótt og andstaða og erfiðleikar byrja. 18 Þyrnarnir lýsa hjörtum þeirra sem hlusta á gleðitíðindin og taka við þeim. 19 En fyrr en varir hefur athygli þeirra beinst að því sem heimurinn hefur að bjóða og að táli auðæfanna. Löngun í metorð og alls kyns gæði gagntekur hug þeirra, svo þar verður ekkert rúm fyrir orð Guðs. Afleiðingin verður sú að fræið ber engan þroskaðan ávöxt. (aiōn g165) 20 Góði jarðvegurinn táknar hjörtu þeirra sem í sannleika hlusta á Guðs orð og taka við því heils hugar og bera ríkulegan ávöxt – þrjátíu, sextíu eða jafnvel hundrað sinnum meira en upphaflega var sáð til í hjörtu þeirra.“ 21 Jesús sagði við lærisveinana: „Á að byrgja ljósið, þegar kveikt hefur verið á lampanum eða setja hann undir bekk? Nei, auðvitað ekki, því þá kæmi ljósið að engum notum! Lampinn er látinn á góðan stað til að lýsa sem best. 22 Dag einn mun allt sem nú er hulið koma í ljós. 23 Hlustið, þið sem eyru hafið! 24 Gætið þess um fram allt að gera eins og ég segi ykkur, leggið ykkur fram við að skilja orð mín. 25 Þeim sem hefur, mun verða gefið, en frá þeim sem ekkert á, mun jafnvel verða tekið það sem hann hefur. 26 Hér er önnur líking um guðsríki: Bóndi sáði í akur sinn. 27 Tíminn leið og kornið óx dag og nótt án þess að maðurinn hjálpaði þar nokkuð til. 28 Moldin gaf vöxtinn. Fyrst skutu kímblöðin upp kollinum og síðar mynduðust öxin á kornstönglunum og að lokum þroskaðist kornið. 29 Þá kom bóndinn með sigðina og skar kornið.“ 30 Síðan spurði Jesús: „Hverju líkist guðsríki? Hvaða dæmisögu eigum við að nota til að lýsa því? 31 Það er eins og örlítið sinnepsfræ! Þótt þetta fræ sé minnsta allra frækorna, þá vex upp af því jurt sem verður öllum jurtum stærri og ber langar greinar þar sem fuglarnir geta byggt hreiður sín og leitað skjóls.“ 32 33 Þannig fræddi Jesús fólkið með dæmisögum sem voru í samræmi við skilning þess, 34 dæmisögulaust talaði hann ekki til þess. Þegar hann var orðinn einn með lærisveinum sínum eftir slíkar stundir, útskýrði hann dæmisögurnar fyrir þeim. 35 Þegar kvöldaði sagði Jesús við lærisveinana: „Við skulum fara yfir vatnið.“ 36 Þá yfirgáfu þeir fólkið á ströndinni og lögðu af stað. Nokkrir bátar fylgdu á eftir þeim. 37 Skyndilega gerði mikið rok og gaf mjög á bátinn, svo við lá að hann fyllti. 38 Jesús svaf í skutnum og hafði kodda undir höfðinu. Lærisveinarnir vöktu hann skelfingu lostnir og hrópuðu: „Meistari, sérðu ekki að við erum að farast?“ 39 Þá hastaði Jesús á vindinn og sagði við vatnið: „Hafðu hægt um þig.“Þá lygndi og allt varð kyrrt og hljótt! 40 Síðan sneri hann sér að þeim og spurði: „Hvers vegna voruð þið svona hræddir? Hafið þið ekki enn lært að treysta mér?“ 41 Hræddir, en fullir lotningar, sögðu þeir hver við annan: „Hver er þessi maður? Bæði vindur og vatn hlýða honum.“

< Markús 4 >